top of page

LÖG MÍMIS

1. ALMENNT

1.1 Félagið heitir MÍMIR. Heimili þess og varnarþing er Menntaskólinn að Laugarvatni, 840 Laugarvatn.

1.2 Tilgangur félagsins og markmið er að gæta hagsmuna nemenda og auðga félagslíf þeirra yfir skólatímann með hverskyns félagsstarfsemi, kynningu bókmennta og lista, íþróttum, málfundum, blaðaútgáfu, o.s.frv.

 

1.3 Félagið er aðili að SÍF (Samband Íslenskra Framhaldskólanema) og er þar að lútandi reglugerð. Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar eru fulltrúar Mímis þar nema að þeir velji sér staðgengil. Innan SÍF kallast þeir sífarar og hlutverk þeirra er að sækja stjórnarfundi SÍF. Varastallari félagsstjórnar er varamaður sífaranna.

2. AÐILD

2.1 Allir nemendur Menntaskólans að Laugarvatni (og aðeins þeir) eru meðlimir félagsins með öllum félagsréttindum, hafi þeir greitt félagsgjöld.

2.2 Meðlimir stjórnarinnar geta beðið aðra félagsmenn um aðstoð en er það alfarið undir félagsmönnum komið að verða við beiðninni. Þó geta starfsmenn félagsins, þeir sem kosnir eru, neitað að hafa sama starf með höndum lengur en eitt kjörtímabil.

 

2.3 Allir meðlimir félagsins eru ólaunaðir. Þó er seta í stjórn Mímis einingar (einingabær) samkvæmt reglum skólans.

 

2.4 Ef meðlimur óskar eftir úrsögn úr félaginu skal skrifleg tilkynning þess efnis send stallara, sem tekur við henni fyrir hönd félagsstjórnar. Um leið og tilkynning hefur borist félagsstjórn missir viðkomandi einstaklingur öll réttindi sín sem meðlimur nemendafélagsins.

 

2.5 Félagsgjöld skulu ákveðin af félagsstjórn og skal það staðfest af aðalfundi. Félagsgjöld skulu standa straum af daglegum rekstri félagsins, þar með talið ákveðið gjald sem rennur til SOS Barnaþorpa.

 

2.6 Einungis meðlimir Mímis mega sitja fundi félagsins, s.s. félagsfundi eða aðalfundi. Undantekningu er þó hægt að veita þeim aðila sem boðinn er á fund af stallara.

3. AÐALFUNDUR

3.1 Æðsta vald í málefnum félagsins er aðalfundur.

 

3.2 Aðalfund skal halda fyrst eftir kjörfund, sbr. grein 9.1.

 

3.3 Félagsstjórn ákveður hvenær aðalfundur skuli haldinn og gengur frá dagskrá hans.

 

3.4 Til aðalfundar skal boðað með minnst þriggja vikna fyrirvara.

 

3.5 Við boðun aðalfundar skal gera grein fyrir dagskrá fundarins.

3.6 Dagskrá fundar:

a) Kosning fundarstjóra og tveggja fundarritara.

b) Fundargerð síðasta aðalfundar lesin og borin upp til samþykktar.

c) Skýrsla fráfarandi stjórnar.

d) Endurskoðaðir reikningar lagðir fram, skýrðir og bornir upp til samþykktar.

e) Lagabreytingatillögur lagðar fram og bornar undir atkvæði.

f) Talning atkvæða í embætti félagsstjórnar.

g) Önnur mál.

h) Skræða lesin upp.

 

3.8 Hver félagsmaður hefur eitt atkvæði í hverri kosningu fyrir sig á aðalfundi.

 

3.9 Aðalfundur þarf að vera setinn af minnst 50% félagsmanna til að samþykktir hans teljist gildar

 

3.10 Sérhver félagsmaður skal skila til eftirmanns síns, við embættaskipti öllum eigum félagsins er hann hefur í umsjá og sjá um að það beri öllu saman við eignaskrá.

4. FÉLAGSFUNDUR

4.1 Félagsfundur hefur æðsta vald félagsins milli aðalfunda.

 

4.2 Félagsstjórn ákveður hvenær félagsfundir skulu haldnir og gengur frá dagskrá þeirra. Þriðjungur félagsmanna getur farið fram á félagsfund og skal hann haldinn innan viku.

 

4.3 Stallari boðar félagsfundi og setur þá.

 

4.4 Samþykktir á félagsfundum um mál sem snerta félaga annars vegar og félagið hins vegar, eru bindandi fyrir alla meðlimi félagsins.

 

4.5 Lýsi 10% félagsmanna Nemendafélagsins Mímis vantrausti á einstakling í félagsstjórn, skal félagsfundur taka málið fyrir, innan viku. Þar skulu forgöngumenn vantrauststillögunnar rökstyðja það og viðkomandi einstaklingi gefinn kostur á að verja sig. Aukinn meirihluti (2/3 hluta) félagsfundar þarf að samþykkja tillöguna til að hún nái fram að ganga.

 

4.6 Hverfi einhver starfsmaður félagsins úr skóla eða segi af sér áður en starfstímabili hans er lokið skal viðkomandi tilkynna stallara brotthvarf sitt og skila til hans öllum eigum félagsins í hans umsjá sbr grein 3.10. Félagsfundur kýs svo annan í hans stað.

 

4.7 Félagsfundur þarf að vera setinn af minnst 25% félagsmanna til að samþykktir hans teljist gildar.

 

4.8 Félagsstjórninni er heimilt að taka ákvörðun um minnimáttar og nauðsynlegar fjárveitingar þó eigi hærri en 300.000 krónur íslenskar til reksturs félagsins án samþykkis félagsfundar.

5. FÉLAGSSTJÓRN

5.1 Félagsstjórn sér um og ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins.

 

5.2 Félagsstjórn sér um skipulagningu Aðalfundar, sbr. grein 3.3.

 

5.3 Félagsstjórn skipa: Stallari, varastallari, gjaldkeri, 2 fulltrúar í jafnréttis- og skólaráði, 2 formenn íþróttanefndar, 2 formenn skemmtinefndar, formaður ritnefndar, formaður tómstundanefndar, 2 formenn árshátíðarnefndar og vef- og markaðsformaður, samtals 14 manns. Þessir einstaklingar hafa atkvæðisrétt í félagsstjórn.

 

5.4 Stjórnarfundir skulu boðaðir af stallara og haldnir a.m.k. á tveggja vikna fresti. Þar skulu nefndaformenn greina frá starfsemi nefnda sinna frá síðasta fundi og leggja fram

áætlun um starfsemi og reyna að komast þannig hjá árekstrum milli þeirra. Meðlimum félagsstjórnar er skylt að sitja fundi hennar, nema lögleg forföll komi til, sbr grein 5.6.

5.5 Félagsstjórnin getur í forföllum nefndarformanns falið félagsmanni utan stjórnar að taka við störfum hans. Stallari eða varastallari tekur sæti fulltrúa í forföllum hans. Varastallari gegnir störfum stallara í forföllum hans. Gjaldkeri gegnir störfum Stallara og Varastallara í forföllum þeirra beggja.

 

5.6 Félagsstjórn er heimilt að kveða sérhvern félagsmann sér til aðstoðar ef hún telur þess þörf, sjá grein 2.3.

 

5.7 Fundir félagsstjórnar þarf að vera setinn af minnst 50% stjórnarmanna til að samþykktir funda hennar teljist gildar.

6. STÖRF MEÐLIMA FÉLAGSSTJÓRNAR

6.1 Stallari er formaður félagsins, oddviti félagsstjórnar og fulltrúi nemenda út á við.

 

6.2 Hlutverk varastallara er að starfa við hlið stallara og vera honum til halds og trausts í ákvarðanatöku og stjórnarstarfi. Varastallari sér um ritarastörf félagsins og skal sitja fundi félagsstjórnar og félagsmanna og skrá í fundargerð allar samþykktir sem gerðar eru, og tillögur er fram kunna að koma. Hann skal í upphafi hvers stjórnarfundar lesa upp fundargerð síðasta stjórnarfundar. Hann skal sjá til þess að allar fundargerðir séu aðgengilegar meðlimum félagsstjórnar og að þær séu færðar inn í minnislykil varastallara. Varastallari gegnir störfum stallara í forföllum hans. Varastallari er áheyrnarfulltrúi nemenda í skólanefnd. Varastallari er einnig varamaður sífaranna.

 

6.3 Gjaldkeri skal sjá um allar fjárreiður félagsins og færa yfir þær nákvæmt bókhald. Gjaldkeri skal sjá um innheimtu félagsgjalda, og annast allar greiðslur, bæði vegna félagsstjórnar og einstakra nefnda félagsins, eftir fyrirmælum félagsfundar. Hann skal a.m.k. færa sjóðreikning sundurliðaðan fyrir einstakar nefndir, rekstursreikning og fylgjast með því að nefndaformenn haldi eignaskrá. Auk þess skal gjaldkeri halda eignaskrá yfir þær eignir sem ekki flokkast undir neinar nefndir. Eignaskrá skal fara yfir minnst tvisvar á reikningsárinu, þegar skóla lýkur á vorin og fyrir aðalfund. Öllu því er félaginu kann að áskotnast, veitir gjaldkeri viðtöku og ber honum að gera félagsstjórn grein fyrir slíku. Gjaldkeri skal skila og gera grein fyrir uppgerðum og endurskoðuðum reikningum ásamt skrá sinni yfir eignir félagsins á aðalfundi. Gjaldkeri hefur heimild til að fela skólameistara vörslu á bókhaldi félagsins og sjóði, meðan skólinn starfar ekki. Fjármál heyra undir gjaldkera. Ekki má stofna til kvaða á hendur félaginu án samþykkis stallara, félagsstjórnar og eða félagsfundar. Í forföllum Stallara og Varastallara gegnir gjaldkeri störfum þeirra beggja.

 

6.4 Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar eru tveir og eiga sæti í félagsstjórn. Þeir skulu gæta hagsmuna félagsmanna á viðkomandi vettvangi. Þeir skulu reglulega gera félagsfundi grein fyrir málefnum sem eru, eða kunna að verða tekin fyrir í skólaráði og leita álits fundarins á þeim ef þörf krefur. Skólaráðsfulltrúar eru einnig mötuneytisfulltrúar nemenda. Þeir sjá einnig um pöntun á ML fötum og allt sem því við kemur. Þeir halda utan um og bera ábyrgð á jafnréttisstarfi Mímis, í samráði við aðra nemendur. Þeir halda á lofti og kynna jafnréttisstefnu Mímis, t.d. á stjórnarfundum og aðalfundi. Þeir eru skyldugir til að mæta á fundi jafnréttisnefndar eða láta vita um lögmæt forföll. Þeir eru einnig tengiliðir og hagsmunafulltrúar nemenda Menntaskólans að Laugarvatni að SÍF.

 

6.5 Íþróttaformenn: Yfir íþróttanefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Íþróttanefnd skal leitast við að halda uppi sem fjölbreyttustu íþróttalífi í skólanum. Íþróttaformenn skipuleggja tíma í íþróttahúsi og sjá um að þeim sé skipt jafnt niður. Einnig skulu þeir annast íþróttakappleiki, keppnisferðir og hafa eftirlit með notkun og hreinsun íþróttabúninga félagsins. Íþróttaformenn eru einnig bátsmenn og skulu þeir gæta báta nemendafélagsins og sjá um að þeir séu ávallt í góðu ásigkomulagi.

 

6.6 Skemmtinefndarformenn: Yfir skemmtinefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Skemmtinefnd skal sjá um dansleiki, kvöldvökur, myndbandasýningar og kvikmyndaferðir. Innan nefndarinnar er starfandi Kvikmyndaklúbbur. Skemmtinefndarformenn skulu einnig sjá um skipulagningu Blítt og Létt.

 

6.7 Tómstundaformaður: Yfir tómastundanefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagsstjórn. Tómstundanefnd skal virkja sem flestar tómstundaiðjur, setja upp keppnir og mót tengdar því og sjá til að spil og skákútbúnaður Mímis sé nothæfur og til staðar. Tómstundaformaður er umsjónarmaður Gettu Betur og Morfís liðsins. Hann er einnig verndari N-stofu, og skal hann sjá til þess að aldrei skorti þar áhöld til tómstundaiðkunar. Innan Tómstundanefndar er starfandi Kássan og Ýmir. Hann er umsjónarmaður hljóðfæra, hljóðkerfis og Soundboks Mímis. Hann skal sjá til þess að Skallinn, Diddinn og Kleó séu haldin einu sinni á hverju tímabili. 

 

6.8 Árshátíðarformenn: Yfir árshátíðarnefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Árshátíðarnefnd skal sjá um undirbúning og framkvæmd árshátíðar skólans sem haldin er í mars ár hvert. Leiklistarnefnd heyrir undir árshátíðarnefndina og í sameiningu skulu þær standa fyrir öðrum leiklistaruppákomum á árinu auk árshátíðarleikritsins. Nefndin sér um leikhúsferðir. Innan árshátíðarnefndar er starfandi Dansklúbbur.

 

6.9 Ritnefndarformaður: Yfir ritnefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagsstjórn. Formaður ritnefndar er ritstjóri Mímisbrunns. Ritstjóri skal sjá til þess að valið sé í fjögurra manna ritnefnd sem starfi með honum. Ritnefnd skal gera nýnemum kleift að kynna sér lög nemendafélagsins í byrjun hvers skólaárs. Ritstjóri skal jafnan varðveita tíu eintök af hverju skólablaði, sem út hefur komið, einnig skal hann sjá um að bókasafn skólans fái jafnan fimm eintök af blaðinu. Ritnefndarformaður skal einnig sjá um að hanna og rita önnur blöð félagsins. Innan nefndarinnar eru starfandi Bókmenntaklúbbur og Myndlistarklúbbur. Ritnefnd skal vera vef- og markaðsfulltrúa innan handar við útgáfu fréttatilkynninga

 

6.10 Vef- og markaðformaður: Yfir vef- og markaðsnefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagstjórn. Hann er ábyrgðar- og umsjónarmaður vefsíðu, tæknimála og markaðsmála Mímis. Formaðurinn skal skipa sér tveggja manna nefnd sem skal vera honum til halds og trausts og skal sú nefnd vinna í nánu samstarfi við ritnefnd. Vef- og markaðsnefnd skal vera ritnefnd innan handar við útgáfu Mímisbrunns skólablaðs Mímis. Vef- og markaðsformaður skal sjá um útgáfu nemendafélagsskírteina. Formaður nefndarinnar á sæti í kynningarnefnd skólans. Vef- og markaðsnefnd skal sjá um að senda fréttatilkynningar á vegum skólans. Formaðurinn skal sjá um myndatöku á öllum helstu viðburðum Mímis. Undir Vef- og markaðsnefnd er einnig starfandi Ljósmyndaklúbbur.

7. AÐRIR EMBÆTTISMENN

7.1 Skræðarar skulu vera tveir. Starf þeirra er fólgið í því að færa inn í þar til gerða bók (Skræðu) yfirlit yfir tíðaranda, tíðarfar og helstu viðburði skólalífsins. Stallari skal fylgjast með störfum þeirra og sjá um að þau séu sótt. Skræðarar skulu tilnefndir af fráfarandi skræðurum á aðalfundi.

 

7.2 Endurskoðendur skulu vera tveir og skulu þeir endurskoða reikninga félagsins,

þegar þeim hentar og í lok hvers starfstímabils. Endurskoðendum er ekki heimilt að sitja í félagsstjórn. Endurskoðendur skulu kallast endur.

7.3 Bekkjarformaður er æskilegur fulltrúi bekkjarins gagnvart félagsstjórn og skólastjórn.

 

7.4 Formaður dagamuna- og dollanefndar skal vera kosinn á síðasta félagsfundi fráfarandi félagsstjórnar.

 

7.5 Búrarar eru tveir og skulu þeir sjá um tónlist í frímínútum ef áhugi er fyrir og öðrum viðburðum eins og til dæmis dimmission og tískusýningu. Tómstundarformaður skal fylgjast með störfum þeirra og sjá um að þau séu sótt. Búrarar skulu kosnir á fyrsta félagsfundi haustannar.

 

7.6 Flipparar eru tveir og skulu þeir sjá til þess að í skólanum séu ávallt góðir straumar. Tómstundarformaður skal fylgjast með störfum þeirra og sjá um að þau séu sótt. Þeir skulu kosnir á fyrsta félagsfundi haustannar.

8. KJÖRSTJÓRN

8.1 Kjörstjórn skal kosin á félagsfundi tímanlega fyrir kosningar. Í kjörstjórn skal kosinn einn meðlimur úr hverjum bekk, samtals þrír aðilar og auk þess einn varamaður og einn kjörstjóri.

 

8.2 Fari einhver meðlimur kjörstjórnar í framboð fellur hann sjálfkrafa úr henni. Tekur þá varamaður sæti hans.

 

8.3 Félagsstjórn ákveður framboðsfrest. Kjörstjórn sker úr um vafaatriði í sambandi við framboð og kosningar. Ritnefndarformaður útbýr kjörskrá. Kjörstjórn útbýr kjörseðla með nöfnum þeirra sem í framboði eru ásamt auðum reiti fyrir öll embætti félagsstjórnar. Kjósendur skulu krossa við þá sem þeir kjósa. Ef krossað er við fleiri eða færri en kjósa á, eða bætt nöfnum á seðilinn, telst viðkomandi atkvæði ógilt.

 

8.4 Skriflegum framboðum skal skila til stallara, varastallara eða ritnefndarformanns áður en framboðsfrestur er útrunninn. Kjörstjórn skal sjá um að þeir menn sem ekki eru á staðnum á kjördag, geti kosið utan kjörfundar. Kjörstjórn skal sjá um að þeir einir kjósi sem eru á kjörskrá þannig að kosningar fari fram ótruflaðar.

 

8.5 Kjörstjórn annast talningu atkvæða á aðalfundi.

 

8.6 Ef talning atkvæða hefst fyrir aðalfund er kjörstjórn bundin algjörum þagnareiði. Skal einn gæslumaður, skipaður og samþykktur á félagsfundi, fylgjast með að allt fari fram eftir settum reglum. Telja skal atkvæði á aðalfundi á æðstu þremur embættunum (stallara, varastallar og gjaldkera) ásamt þeim framboðum þar sem mjótt er á munum.

9. KOSNINGAR

9.1  Kjörfundur skal haldinn í síðasta lagi í lok febrúar. Á honum skal stjórn félagsins, sjá grein 5.3., kosin leynilegri kosningu.
 

9.2  Í embætti skemmtinefndarformanna, íþróttaformanna, skólaráðsfulltrúa og árshátíðarformanna skal bjóða fram tvo saman og á kjörseðli skal vera einn reitur við parið. Einstaklingsframboð skulu vera í önnur embætti. Mælst er til þess að stjórnin veki athygli á kynjahlutföllum í paraframboðum og hvetji til fjölbreytni.
 

9.3  Sérhver félagi í Mími getur boðið sig fram, eða annan félaga með skriflegu samþykki hans, til embættis.
 

9.4  Enginn einstaklingur má vera í framboði til, né gegna fleiri en einu embætti í stjórn Mímis. 
 

9.5  Kosningarétt og kjörgengi skulu allir félagsmenn hafa. Þó skulu stallari, varastallari og gjaldkeri vera úr 2. bekk einnig skal gjaldkeri verða orðinn fjárráða síðasta lagi 1. júlí árið sem hann verður kjörinn (sjá einnig grein 2.3).
 

9.6  Berist aðeins eitt framboð í eitthvert embætti þarf framboðið að fá minnst helming eða 50% atkvæða til að skoðast samþykkt. Ef frambjóðandi nær ekki kjöri er lýst að nýju eftir frambjóðendum og kosið á ný svo fljótt sem auðið er. Sama gildir ef ekkert framboð berst í eitthvert embætti sbr. lögum 5.5. Ef jafntefli verður í einhverju embætti skal vera kosið aftur um efstu tvo frambjóðendurna svo fljótt sem auðið er.
 

9.7  Allur áróður skal horfinn úr skólanum áður en kjörfundur hefst.
 

9.8  Á framboðsfundi skal gilda sú regla að fráfarandi embættismenn mega ekki mæla með frambjóðendum og ekki spyrja frambjóðendur sama embættis.

10. GILDI LAGANNA

10.1  Lögum er aðeins hægt að breyta eða fella úr gildi með samþykki 2/3 hluta atkvæða á löglegum aðalfundi.
 

10.2  Lög öðlast gildi um leið og þau hafa verið samþykkt á aðalfundi og fyrri lög falla úr gildi.
 

10.3  Breytingar á reglugerðum skulu í millitíðinni framkvæmdar á félagsfundum.

11. LÖG HINSEGINFÉLAGSINS YGGDRASILL

11.1 Félagið heitir Yggdrasill. Varnarþing þess er Menntaskólinn að Laugarvatni.

 

11.2 Tilgangur félagsins er að auka fræðslu um hinsegin málefni í skólanum og að veita hinsegin nemendum skólans stuðning.

 

11.3 Meðlimir félagsins eru svokallaðir meðvitar, en hvaða nemandi skólans sem er má vera meðviti.

11.4 Stjórn:

 

11.4.1 Embætti stjórnar félagsins eru fjögur; oddviti, hálfviti, netviti og ritviti.

 

11.4.2 Oddviti er andlit félagsins út á við. Starf oddvita felst í því að sjá um að allt gangi smurt fyrir sig innan félagsins, að sýna frumkvæði, bera ábyrgð og boða til funda.

 

11.4.3 Hálfviti er staðgengill oddvita, eða vinstri hönd hans.

 

11.4.4 Netviti sér um samfélagsmiðla félagsins og er einskonar markaðsfulltrúi þess. Starf netvita felst aðallega í því að hanna og setja upp auglýsingar félagsins og að aðstoða ritvita við fréttir sem birtast á heimasíðu skólans.

 

11.4.5 Ritviti sér um að skrifa fundargerðir og halda utan um gögn félagsins, t.d. lög þess. Ritviti sér einnig um að skrifa fréttir á heimasíðu skólans í samvinnu við netvita.

11.5 Aðalfundur:

 

11.5.1 Aðalfundur fer fram í september á ári hverju.

 

11.5.2 Stjórn skal kosin til eins árs í senn með leynilegri atkvæðagreiðslu sem far fram á aðalfundi.

11.6 Embætti oddvita fylgir borðfáni í hinseginlitunum. Fáninn skal ávallt fylgja oddvita og ber oddvita skylda að varðveita hann yfir sitt kjörtímabil. Fáninn skal afhentur nýjum oddvita þegar hann er kjörinn ár hvert.

 

11.7 Hinseginfélagið skal sjá um að halda hinseginvikuna á haustönn ár hvert.

12. Jafnrétti

12.1 Áreitni í garð annarra er ekki liðin á viðburðum Mímis. Er hún metin á eftirfarandi hátt: 

a) Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun sem hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess/þeirra sem fyrir henni verður og/eða er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. 

b) Atvik sem leiða til eða gætu leitt til líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáningu þolenda. 

c) Hótun um slík atvik, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi. 

d) Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn.  

12.2 Brot á fyrrnefndum lögum getur varðað við endanlegan brottrekstur úr nemendafélaginu Mími. Stjórn Mímis, jafnréttisfulltrúi skólans og skólameistari sjá um að meta alvarleika brota og að refsingum sé framfylgt. 

FUNDARSKÖP MÍMIS

Aðalfundir skulu boðaðir með svo miklum fyrirvara að menn geti kynnt sér dagskrá þeirra.

Stallari setur fundi og stjórnar þeim sjálfur, eða skipar sérstakan fundarstjóra. 

Fundarstjóri Aðalfundar er sjálfkrafa uppboðsstjóri fundarins ef að kalla þarf til uppboðs, rennur allur ágróði til stjórn Mímis. 

Æskilegt er að fundarstjóri taki ekki þátt í umræðum, en geri hann það ber honum að skipa annan mann í sæti sitt á meðan.

Stallari skipar einnig tvo fundarritara í byrjun fundar. Skulu þeir rita niður nákvæma fundargerð, og afhenda varastallara félagsins í lok fundar. Fundargerðin er borin upp til samþykktar við upphaf næsta aðalfundar.

Fundarstjóri skal sjá um að góð regla ríki á fundinum og að þeir sem reyna að hefta starfsemi fundarins séu fjarlægðir, að undangenginni aðvörun.

Óski fundarmaður að taka til máls, skal hann tilkynna fundarstjóra það, en bíða síðan þar til að fundarstjóri tilkynnir nafn hans og gefur honum orðið.

Fundarstjóri skal að jafnaði gefa mönnum orðið í þeirri röð sem þeir biðja um það. Þó er fundarstjóra heimilt að breyta út af þessari reglu ef fundarmenn óska eftir að leiðrétta misskilning.

Ræðumenn skulu jafnan tala úr ræðustól.

Komi fram tillaga frá fundarmanni eða fundarstjóra um að takmarka umræður vegna tímaskorts eða málþófs, er um tvær leiðir að velja, aðra eða báðar í senn. Önnur er takmörkun ræðutíma, hin er lokun á mælendaskrá. Lokun mælendaskrár fer þannig fram, að eftir að samþykki fundarins er fengið les fundarstjóri upp nöfn þeirra sem þegar eru á mælendaskrá, er henni þar með lokað.

Umræður fara ekki fram um takmörkun ræðutíma, en takmörkun er háð samþykki fundarins.

Fundurinn getur frestað umræðum ef tími sá sem fundurinn hefur til umráða er þrotinn, áður en umræðu er lokið eða nauðsynlegar upplýsingar um málefnið vantar.

Tillögur skal afhenda fundarstjóra skriflega, nema um stuttar tillögur sé að ræða.

Komi fram margar tillögur svipaðs efnis um málefni er æskilegt að fundarstjóri fari þess á leit við flutningsmenn að þeir reyni að samræma tillögurnar og auðvelda þannig meðferð þeirra.

 

Tillögur skulu bornar upp í þeirri röð er þær berast. Undantekningar eru þó:

Frávísunartillögur eru bornar upp á undan aðaltillögum.

Breytingatillögur skulu bornar upp á undan aðaltillögum.

Viðaukatillögur skulu bornar upp á eftir aðaltillögum.

Komi fram tillaga sem fundarstjóri telur fundinn ekki hafa heimild til að samþykkja, eða telji hann tillöguna andstæða lögum félagsins, lætur hann ekki fara fram atkvæðagreiðslu um hana. Sé fundarstjóri í vafa um þetta atriði, getur hann skotið málinu undir úrskurð fundarins.

Öll vafaatriði sem koma upp í sambandi við starf fundar skal bera undir atkvæði fundarmanna, telji fundarstjóri sér ekki fært að taka sjálfstæða ákvörðun í málinu og ræður þá einfaldur meirihluti atkvæða.

Breytingar á fundarsköpum er aðeins hægt að gera á aðalfundi, séu þær samþykktar með 2/3 hlutum atkvæða.

REGLUGERÐ UM NOTKUN OG UMSJÓN HLJÓMTÆKJA, HLJÓÐFÆRA OG PLÖTUSAFNS.

1.    Plötur nemendafélagsins skulu skráðar í spjaldskrá.

2.    Hljómflutningstæki skulu ekki lánuð út nema í þágu nemendafélagsins, t.d. til diskótekahalds eða plötukynninga. Þarf leyfi stallara eða skemmtinefndar fyrir slíkum útlánum. Komi upp ágreiningur um hljómflutningstækin skal leita úrskurðar félagsstjórnar Mímis. Svo og ef lána skal tækin á annað en það sem eðlilegt getur talist og kveðið er á um í reglugerðinni.

3.    Hljómflutningstækin og plöturnar skulu geymdar í þar til gerðum læstum hirslum. Skulu hirslur hljómflutningstækjanna þannig úr garði gerðar að tækin verði auðveldlega flutt úr stað.

4.    Formaður tónlistarklúbbs og búrarar skulu sjá um tónlist í frímínútum ef áhugi er fyrir og öðrum viðburðum eins og til dæmis dimmission og tískusýningu. Búrarar skulu kosnir á fyrsta félagsfundi nýrrar félagsstjórnar.

 

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

REGLUGERÐ UM NOTKUN OG UMSJÓN HLJÓÐFÆRA

1.    Tómstundarformaður er umsjónarmaður hljóðfæra. Hann skal sjá um hljóðfæri nemendafélagsins og bera fulla ábyrgð á þeim gagnvart félaginu.

2.    Hljóðfærin skulu höfð í læstu herbergi þegar einhver ábyrgur er ekki til staðar. Notkun hljóðfæranna er háð samþykki tómstundarformanns og skal hann hafa lykla að herberginu. Þegar hljóðfærin eru fengin til notkunar getur þó tómstundarformaður lánað ábyrgum manni lykilinn og falið honum að sjá um frágang hljóðfæranna. Lyklum skal skilað þegar eftir notkun í hvert skipti.

3.    Tómstundarformaður skal hafa yfirumsjón með flutningi tækjanna úr stað, uppsetningu og öðru þess háttar, ásamt viðhaldi og viðgerðum. Þeir skulu og gera grein fyrir breytingum gagnvart eignaskrá.

4.    Ef nota á hljóðfærin í annað en eðlilegt getur talist, eða komi upp ágreiningur um þau, skal leita úrskurðar félagsstjórnar Mímis.

 

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

REGLUGERÐ UM KLÚBBA Í TENGSLUM VIÐ MÍMI

Allir klúbbar eru opnir, einn formaður er fyrir hverjum klúbb. Skal hann kosinn á félagsfundi. Allir félagsmenn sem áhuga hafa á starfi einstakra klúbba eru meðlimir hans. Getur sérhver félagi ráðið jafn miklu og formaður klúbbsins, en hlutverk hans er fyrst og fremst að sjá um að starfsemin verði sem blómlegust. Við þetta er átt þegar talað um að klúbbur sé opinn. Allir eru jafn réttháir þegar ákvarðanir eru teknar og allir geta unnið að verkefnum klúbbsins. Óski nemendur eftir að stofna klúbb í tengslum við Mími skulu þeir hafa um það samráð við stallara. Klúbbaformenn skulu kosnir á fyrsta félagsfundi eftir stjórnarskipti.

SKRÁÐIR KLÚBBAR Í TENGSLUM VIÐ MÍMI

Bókmenntaklúbbur: Annast kynningar á bókmenntum innan félagsins og fleira á bókmenntasviðinu.
Ljósmyndaklúbbur: Hann sér um að fram fari kennsla í ljósmyndatöku. Ljósmyndasafn félagsins er í umsjá klúbbsins. Ljósmyndasafn félagssins er rafrænt og skal klúbburinn sjá um að uppfæra reglulega myndir af félagslífi.
Myndlistarklúbbur: Hann útvegar aðstöðu til að mála og teikna. Klúbburinn skal útvega allt efni sem til þarf. Myndlistarsýning skal haldin á hverjum vetri.
Dansklúbbur: Markmið hans er að stuðla að bættu danslífi í skólanum.
Kvikmyndaklúbbur: Hann skal festa á filmu helstu atburði félagsins og fela filmurnar í vörslu bókasafnsvarðar. Myndbandsupptökuvél nemendafélagsins skal höfð í vörslu skólaritara sem sér um skráningu útlána. Leigjanda ber að undirrita ábyrgðarsamning um vörslu vélarinnar meðan á útláni stendur.
Kássan: Klúbbur áhugamanna um spunaspil.

Ýmir: Markmið hans er að stuðla að rafíþróttalífi í skólanum og vera undirstaða keppnishalds í þeim greinum. Klúbburinn skipar einnig lið sem tekur þátt í keppnum RÍSÍ fyrir hönd skólans. Liðið heitir einnig Ýmir.

bottom of page