top of page
Stallari

Stallari er formaður félagsins, oddviti félagsstjórnar og fulltrúi nemenda út á við.

Varastallari

Hlutverk varastallara er að starfa við hlið stallara og vera honum til halds og trausts í ákvarðanatöku og stjórnarstarfi. Varastallari sér um ritarastörf félagsins og skal sitja fundi félagsstjórnar og félagsmanna og skrá í fundargerð allar samþykktir sem gerðar eru, og tillögur er fram kunna að koma. Hann skal í upphafi hvers stjórnarfundar lesa upp fundargerð síðasta stjórnarfundar. Hann skal sjá til þess að allar fundargerðir séu aðgengilegar meðlimum félagsstjórnar og að þær séu færðar inn í minnislykil varastallara. Varastallari gegnir störfum stallara í forföllum hans. Varastallari er áheyrnarfulltrúi nemenda í skólanefnd. Varastallari er einnig varamaður sífaranna.

Gjaldkeri

Gjaldkeri skal sjá um allar fjárreiður félagsins og færa yfir þær nákvæmt bókhald. Gjaldkeri skal sjá um innheimtu félagsgjalda, og annast allar greiðslur, bæði vegna félagsstjórnar og einstakra nefnda félagsins, eftir fyrirmælum félagsfundar. Hann skal a.m.k. færa sjóðreikning sundurliðaðan  fyrir einstakar nefndir, rekstursreikning og fylgjast með því að nefndaformenn haldi eignaskrá. Auk þess skal gjaldkeri halda eignaskrá yfir þær eignir sem ekki flokkast undir neinar nefndir. Eignaskrá skal fara yfir minnst tvisvar á reikningsárinu, þegar skóla lýkur á vorin og fyrir aðalfund. Öllu því er félaginu kann að áskotnast, veitir gjaldkeri viðtöku og ber honum að gera félagsstjórn grein fyrir slíku. Gjaldkeri skal skila og gera grein fyrir uppgerðum og endurskoðuðum  reikningum ásamt skrá sinni yfir eignir félagsins á aðalfundi. Gjaldkeri hefur heimild til að fela skólameistara vörslu á bókhaldi félagsins og sjóði, meðan skólinn starfar ekki. Fjármál heyra undir gjaldkera. Ekki má stofna til kvaða á hendur félaginu án samþykkis stallara, félagsstjórnar og eða félagsfundar. Í forföllum Stallara og Varastallara gegnir gjaldkeri störfum þeirra beggja.

Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar

Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar eru tveir og eiga sæti í félagsstjórn. Þeir skulu gæta hagsmuna félagsmanna á viðkomandi vettvangi. Þeir skulu reglulega gera félagsfundi grein fyrir málefnum sem eru, eða kunna að verða tekin fyrir í skólaráði og leita álits fundarins á þeim ef þörf krefur. Skólaráðsfulltrúar eru einnig mötuneytisfulltrúar nemenda. Þeir sjá einnig um pöntun á ML fötum og allt sem því við kemur. Þeir halda utan um og bera ábyrgð á jafnréttisstarfi Mímis, í samráði við aðra nemendur. Þeir halda á lofti og kynna jafnréttisstefnu Mímis, t.d. á stjórnarfundum og aðalfundi. Þeir eru skyldugir til að mæta á fundi jafnréttisnefndar ellegar láta vita um lögmæt forföll. Þeir eru einnig tengiliðir og hagsmunafulltrúar nemenda Menntaskólans að Laugarvatni að SÍF.

Íþróttaformenn

Íþróttaformenn: Yfir íþróttanefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Íþróttanefnd skal leitast við að halda uppi sem fjölbreyttustu íþróttalífi í skólanum. Íþróttaformenn skipuleggja tíma í íþróttahúsi og sjá um að þeim sé skipt jafnt niður. Einnig skulu þeir annast íþróttakappleiki, keppnisferðir og hafa eftirlit með notkun og hreinsun íþróttabúninga félagsins. Íþróttaformenn eru einnig bátsmenn og skulu þeir gæta báta nemendafélagsins og sjá um að þeir séu ávallt í góðu ásigkomulagi.

Skemmtinefndarformenn

Skemmtinefndarformenn: Yfir skemmtinefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Skemmtinefnd skal sjá um dansleiki, kvöldvökur, myndbandasýningar og kvikmyndaferðir. Innan nefndarinnar er starfandi Kvikmyndaklúbbur.

Tómstundaformaður

Tómstundaformaður: Yfir tómastundanefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagsstjórn. Tómstundanefnd skal virkja sem flestar tómstundaiðjur, setja upp keppnir og mót tengdar því og sjá til að spil og skákútbúnaður Mímis sé nothæfur og til staðar. Tómstundaformaður er umsjónarmaður Gettu Betur og Morfís liðsins. Hann er einnig verndari N-stofu, og skal hann sjá til þess að aldrei skorti þar áhöld til tómstundaiðkunar. Innan Tómstundanefndar er starfandi Kássan og Ýmir. Hann er umsjónarmaður hljóðfæra og hljóðkerfi Mímis. Hann skal sjá til þess að Skallinn (vímuefnalaust ball, haldið í N-stofu) verði haldið árlega í samráði við stjórnendur skólans.

Árshátíðarformenn

Árshátíðarformenn: Yfir árshátíðarnefnd skulu vera tveir formenn sem eiga sæti í félagsstjórn. Árshátíðarnefnd skal sjá um undirbúning og framkvæmd árshátíðar skólans sem haldin er í mars ár hvert. Leiklistarnefnd heyrir undir árshátíðarnefndina og í sameiningu skulu þær standa fyrir öðrum leiklistaruppákomum á árinu auk árshátíðarleikritsins. Nefndin sér um leikhúsferðir. Innan árshátíðarnefndar er starfandi Dansklúbbur.

Ritnefndarformaður

Ritnefndarformaður: Yfir ritnefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagsstjórn. Formaður ritnefndar er ritstjóri Mímisbrunns. Ritstjóri skal sjá til þess að valið sé í fjögurra manna ritnefnd sem starfi með honum. Ritnefnd skal gera nýnemum kleift að kynna sér lög nemendafélagsins í byrjun hvers skólaárs.


Ritstjóri skal jafnan varðveita tíu eintök af hverju skólablaði, sem út hefur komið, einnig skal hann sjá um að bókasafn skólans fái jafnan fimm eintök af blaðinu. Innan nefndarinnar eru starfandi Bókmenntaklúbbur og Myndlistarklúbbur. Ritnefnd skal vera vef- og markaðsfulltrúa innan handar við útgáfu fréttatilkynninga.

Vef- og markaðsformaður

Vef- og markaðformaður: Yfir vef- og markaðsnefnd skal vera einn formaður sem á sæti í félagstjórn. Hann er ábyrgðar- og umsjónarmaður vefsíðu, tæknimála og markaðsmála Mímis. Formaðurinn skal skipa sér tveggja manna nefnd sem skal vera honum til halds og trausts og skal sú nefnd vinna í nánu samstarfi við ritnefnd. Vef- og markaðsnefnd skal vera ritnefnd innan handar við útgáfu Mímisbrunns skólablaðs Mímis.

 

Vef- og markaðsformaður skal sjá um myndatöku og útgáfu fyrir nemendafélagsskírteini. Formaður nefndarinnar á sæti í kynningarnefnd skólans. Vef- og markaðsnefnd skal sjá um að senda fréttatilkynningar á vegum skólans. Formaðurinn skal sjá um myndatöku á öllum helstu viðburðum Mímis. Undir Vef- og markaðsnefnd er einnig starfandi Ljósmyndaklúbbur.

bottom of page